Hvað er að gerast í málaflokki hugvíkkandi efna á Íslandi?
Síðustu ár hefur umræðan um notkun hugvíkkandi efna í meðferðarskyni tekið stakkaksiptum, bæði hér heima á Íslandi og úti í hinum stóra heimi. Hugvíkkandi efni á borð við sílósíbin (psilocybin), LSD, MDMA og ketamín hafa verið rannsökuð við stóra háskóla og rannsóknarstofur í þeim tilgangi að finna út hvort þekking okkar varðandi þessi efni, að þau séu stórhættuleg og nýtist ekki í meðferðarskyni, sé í raun sönn. Slíkar rannsóknir hafa ekki verið gerðar með beinum hætti á Íslandi en þó eru margar spennandi hræringar í málaflokki hugvíkkandi efna og framförum í geðheilbrigðisþjónustu.
Þó svo fréttir og greinar af nýjungum í málaflokki hugvíkkandi efna hafi birst á íslenskum vefmiðlum síðustu ár, hefur áhugi ráðafólks verið takmarkaður og fordómarnir fyrirferðamiklir. Vendingar urðu í opinberri umræðu á Íslandi þegar Kveikur fjallaði um hugvíkkandi efni í meðferðarskyni í febrúar 2022. Þá var rætt við prófessor David Nutt, sem rannsakað hefur áhrif psilocybin á meðferðarþrátt þunglyndi og geðveiki til fjölda ára við góðar niðurstöður ásamt Íslendingum sem nýtt hafa slíka meðferð hér á landi og erlendis, þó ólögleg sé. Umfjöllunin var vel unnin og snerti á fordómum, kostum og göllum við hugvíkkandi meðferðir sem og afgerandi jákvæðar niðurstöður rannsókna Imperial College í Lundúnum meðal annars. Markaði þessi umfjöllun Kveiks, sem titluð er „Ofskynjunarefni gætu nýst sem geðlyf í framtíðinni” ákveðin kaflaskil í almennri umræðu um hugvíkkandi meðferðir á Íslandi.
Eftir umfjöllun Kveiks í byrjun árs var Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði og yfirlæknir á LSH fengin í viðtal í Kastljósið þar sem farið var betur yfir hvernig notkun hugvíkkandi efna gæti mögulega verið háttað í íslensku meðferðar- og lagaumhverfi. Viðurkennt er að vitað sé af fjölda fólks sem bæði býður upp á slíkar meðferðir hér á landi og einnig að fjöldi fólks sé að sækja sér þessa þjónustu. Það geti þó verið erfitt að ræða það opinberlega eða leita sér hjálpar í hefðbundnu heilbrigðiskerfinu samhliða notkun hugvíkkandi efna, því fólk óttist gjarnan að vera stimplað „fíklar” eða að þau hljóti lagalega refsingu fyrir að sækja sér slíkar meðferðir. Því sé mikilvægt að innleiða ákveðin lagaramma og halda fast í taumana þegar kemur að notkun hugvíkkandi efna í meðferðarskyni.
Síðan í febrúar hafa birst nokkrar fréttir, viðtöl og skrif um notkun hugvíkkandi efna í meðferðarskyni, bæði frá fólki sem telur þær jákvæðar og hefur sjálft séð bata í þeim sem og raddir þeirra sem segja að slíkar meðferðir beri að varast. Þá fór af stað rannsókn á vegum nemenda í sálfræði við Háskóla Íslands, þar sem leitað var eftir fólki sem sótt hafði slíkar meðferðir og við þau tekin viðtöl til þess að kanna stöðu hugvíkkandi efna á Íslandi, meðferðarúrræða og batavegi þeirra sem sóttu eða sækja slíkar meðferðir. Rannsóknin fór vel af stað en hana leiða Karól Kvaran, Kristín Ketilsdóttir og Kolbrún Hallgrímsdóttir, nemendur við sálfræðideild HÍ.
„Það sem er svo ofboðslega áhugavert við þessi efni er að svo virðist sem að fólk sé ekkert endilega að neyta þeirra til afþreyingar heldur sem meðferðarúrræði og það hafa verið gerðar rannsóknir erlendis og þeim hefur farið fjölgandi mjög hratt þar sem verið er að rannsaka þau með meðferðartilgang í huga en þessar rannsóknir hafa ekki verið gerðar á Íslandi,” segir Kristín í samtali við Vísi.is í apríl 2022.
Með umfjöllun Kveiks, Kastljóss og þessarar rannsóknar á vegum Háskóla Íslands, urðu hugvíkkandi meðferðir eitthvað sem hinn almenni borgari fór að láta sig varða. Umræðan er eldfim og bannhelg á tíðum enda tengist hún að sjálfsögðu inn í umræðuna um almennt geðheilbrigði þjóðarinnar, notkun og misnotkun ólöglegra og löglegra lyfja og stríðið gegn fíkniefnum - allt umræðuefni sem auðvelt er að deila um.
Til þess að umræðan geti skilað einhverjum haldbærum niðurstöðum og breytingum er auðvitað nauðsynlegt að allar raddir fái að heyrast og að fræðslan um hugvíkkandi efni í meðferðarskyni sé á vísindalegum grunni byggð, enda hafa þessi efni skírskotanir og tengingar í ákveðna „hippa- og andmenningu” sem fólki gæti þótt óþægilegt og skrítið.
Þá fjallaði fréttaskýringaþátturinn Kompás um ofbeldi og misnotkun innan andlega samfélagsins á Íslandi en órjúfanleg bönd eru á milli andlegrar heilunnar (e. spirituality) og hugvíkkandi efna og hafa verið í áratugi. Ákveðnir hnökrar urðu þá í umræðunni, enda flókið málefni þegar fólk er farið að misnota bæði vald sitt og hugbreytandi efni til þess að fá sínu framgengt.
Þess vegna er vinna okkar hjá Eden Foundation og hinu nýstofnaða Icelandic Psychedelic Association miðuð að því að aðskilja afþreyingarnotkun hugvíkkandi efna og læknisfræðilega eða meðferðarfræðilega notkun. Það er ásetningur þeirra sem vinna með hugvíkkandi efni í meðferðarskyni að varpa ljósi á haldbærar rannsóknir, niðurstöður og raddir þeirra rannsakenda sem geta frætt okkur um nytsemi hugvíkkandi efna í meðferðarskyni.
Í september birtist grein í Læknablaðinu þar sem farið var yfir niðurstöður margvíslegra erlendra rannsókna sem notuðust við psilocybin, virka efnið í hugvíkkandi sveppum, sem meðferð við meðferðarþráu þunglyndi og öðrum geðrænum kvillum. Gögn voru tekin saman úr rannsóknum, þau skoðuð til hlítar og lagt fram hlutlaust mat á því hvort efnið nýtist til meðferðar eða ekki. Safngreininguna unnu Árný Jóhannesdóttir, læknir á geðþjónustu Landsspítalans og Engilbert Sigurðsson, fyrrnefndur prófessor í geðlæknisfræði og yfirlæknir á LSH.
Titill safngreiningarinnar er „Notkun psilocybins við meðferðarþráu þunglyndi” og vöktu þessi skrif mikla athygli. Í greininni er farið yfir það hvernig rannsóknum á psilocybin er háttað, hverjar niðurstöðurnar eru og hvort það standist skoðun að psilocybin geti hjálpað ákveðnum einstaklingum með meðferðarþrátt þunglyndi. Niðurstöðurnar eru þær að psilocybin hefur reynst vel þegar kemur að því að vinna með meðferðarþrátt þunglyndi en vegna þess að lyfið er enn ólöglegt er erfitt að rannsaka það og þar af leiðandi erfitt að fá afgerandi jákvæðar eða neikvæðar niðurstöður. Þó sé margt sem bendi til þess að psilocybin meðferðir geti nýst til góða þegar kemur að meðferðarþráu þunglyndi, kvíða eða áfallastreituröskun.
Þann 30.september birtist grein á Kjarnanum sem sagði frá því að yfir 20 íslenskir þingmenn hafi skrifað undir þingsályktunnartillögu um heimild til rannsókna og notkunar á psilocybin í geðlækningaskyni. Þá vakti athygli hversu þverpólitísk samstaða myndaðist varðandi málefnið en þingmenn úr öllum flokkum, að undanskildum Vinstri grænum, skrifuðu undir þingsályktunnartillöguna.
Tillagan felur í sér að Alþingi óski eftir því við heilbrigðisráðherra í samstarfi við aðra ráðherra sem málið varðar, hefjist handa við að „undirbúa og leggja til nauðsynlegar breytingar, hvort sem er á lögum, reglugerðum eða með öðrum hætti, sem heimila rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efnið sílósíbín í geðlækningaskyni og skapa skýra umgjörð fyrir sérhæfða meðferðaraðila um notkun efnisins í þeim tilgangi“.
Þingmennirnir sem skrifuðu undir óskuðu eftir því að tillögur frá viðeigandi ráðuneytum verði birtar eigi síðar en vorið 2023 og leitast eftir því að Ísland verði þátttakandi í þriðja fasa erlendra rannsókna um notkun psilocybin við meðferðarþráu þunglyndi.
Samkvæmt því sem stendur í greinagerðinni er það markmið tillögunnar að „Ísland verði leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningarskyni” og að „rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efni í geðlækningarskyni verði alfarið í höndum fagfólks í heilbrigðisþjónustu”.
Í nóvember mælti svo Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fyrir frumvarpinu á Alþingi. Hann fagnar því að náðst hafi þverpólitísk sátt um notkun psilocybin í meðferðarskyni og segir þetta vera næsta rökrétta skref í geðlyfjalækningum, eins og sést hafi í þeim löndum sem nú þegar hafa heimilað rannsóknir og notkun á psilocybin.
Í greinagerðinni segir: „Ávinningurinn gæti orðið verulegur, ekki síst á Íslandi þar sem um 60.000 einstaklingar glíma við geðræn vandamál. Geðlyfjanotkun á Íslandi hefur rúmlega tvöfaldast á síðustu 15 árum. Árið 2005 var 627 skömmtum af geðlyfjum ávísað á hverja 100.000 íbúa, en árið 2020 voru skammtarnir orðnir 1.317. Talið er að hefðbundin þunglyndislyf gagnist ekki í um þriðjungi tilfella,“ og er rík áhersla lögð á að með samþykkt þessa frumvarps að rannsóknir á notkun psilocybins í meðferðarskyni verði í höndum fagfólks og kannað verði til hlítar hvort efnið geti í raun nýst til geðlækninga og sé þá ekki jafn skaðlegt og áður var talið.
Ráðstefnan Psychedelics as Medicine sem Eden Foundation skipuleggur og heldur í Hörpu næstkomandi janúar, er því kjörið tækifæri fyrir þingmenn, ráðafólk, heilbrigðisstarfsfólk og þau sem starfa innan geðheilbrigðis- og endurhæfingargeirans til þess að sækja sér nauðsynlega þekkingu á rannsóknum um hugvíkkandi efni í meðferðarskyni.
Meðal fyrirlesara eru helstu frumkvöðlar í heimi hugvíkkandi rannsókna á borð við Rick Doblin, David Erritzoe og Ben Sessa. Þá verða fyrirlestrar frá rannsóknarblaðamanninum og rithöfundinum Michael Pollan, sem er hvað þekktastur fyrir bók sína How to Change Your Mind og hinum óviðjafnanlega Gabor Maté, lækni og áfallasérfræðingi sem ætti að vera Íslendingum góðkunnugur.
Miðasala er hafin hér og eru nokkur passaverð í boði, fyrir almenning, nemendur og fagfólk. Við hvetjum öll þau sem hafa áhuga á að sækja sér þessa þekkingu að leita í sín stétta- og fagfélög fyrir styrki en þessi þekking kemur til með að nýtast öllum þeim sem starfa við einhverskonar heilbrigðisþjónustu.
Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna, fyrirlesara og Eden Foundation má finna hér á heimasíðu samtakanna.