Hvað er smáskömmtun?
Hugtakið „smáskömmtun” eða „microdosing” hefur náð gríðarlegu flugi síðasta áratuginn en með smáksömmtun er átt við þegar teknir eru inn smáir skammtar af einhverskonar hugvíkkandi efni yfir langt tímabil. Smáskömmtun er því þannig frábrugðin „trippum” eða lengri „ferðalögum” að því leytinu til að hugvíkkandi og ofskynjunaráhrifin eru töluvert mildari, ef einhver, eftir því sem skammturinn er minni. Smáskömmtun er því hugsuð til þess að nýta virka efnið til lengri tíma en áætlað er með stærri skömmtum.
Þó svo umfjöllun um hugvíkkandi efni eða ofskynjunarlyf á borð við psilocybin, virka efnið í hugvíkkandi sveppum eða LSD og MDMA, hafi farið á mikið flug síðasta árautg er enn mikill skortur á vísindalegum rannsóknum um smáskömmtun. Rannsóknir hafa verið gerðar á stórum skömmtum á psilocybin, LSD og MDMA í krabbameinssjúklingum og fólki með „treatment resistant depression” eða þunglyndi sem bregst ekki við öðrum meðferðarúrræðum. Þær rannsóknir hafa verið framkvæmdar af stórum og virtum háskólum og stofnunum víða um heim og skilað jákvæðum niðurstöðum en sem betur fer eru rannsóknir á smáskömmtun sífellt að færast í aukana. Rannsóknir Dr. Robin Carhart-Harris við London Imperial College og rannsóknardeild á áhrifum hugvíkkandi efna við Johns Hopkins háskólaspítalann í Bandaríkjunum verða vonandi til þess að möguleikarnir á notkun hugvíkkandi efna í meðferðarskyni aukast.
Hér á landi er vinsælast að smáskammta psilocybin, sem eins og áður segir er virka efnið í ákveðnum tegundum peðsveppa og hefur bein áhrif á miðtaugakerfi manneskjunnar. Psilocybin finnst meðal annars í íslenskum trjónupeðlum sem vaxa víða á sunnanverðu landinu á túnum og graslendi. Smáskömmtun á psilocybin hefur verið vinsæl leið fyrir kvíða- og þunglyndissjúklinga til þess að takast á við sínar greiningar, þá sérstaklega ef einstaklingurinn hefur þreytt mörg meðferðarúrræði og prófað mörg SSRI eða SNRI lyf í gegnum tíðina án árangurs. Nánar er farið í virkni psilocybin og hugvíkkandi sveppa í þessari færslu hér.
Þau sem aðhyllast og hafa talað fyrir smáskömmtun á hugvíkkandi efnum vilja meina að séu efnin tekin reglulega inn í smáum skömmtum, án þessari stórfenglegu hugvíkkandi áhrifa sem þekkjast af lengri ferðalögum, geti hugvíkkandi efnin orðið til þess að skapa ný taugatengsl í heilanum. Þannig verður grundvallarmunur á smáskömmtun og „stórskömmtun” eða lengri „trippum” og ættu einstaklingar að nálgast þessar tvær leiðir til inntöku á hugvíkkandi efnum á gjörólíkan hátt.
Smáskömmtun er frábrugðin „trippum” eða „ferðalögum” að því leytinu til að með smáskömmtun, eins og nafnið gefur til kynna, er verið að neyta smárra skammta í senn. Vanalega er þá tekinn inn einn tíundi af venjulegum, hugvíkkandi skammti. Sem dæmi er venjulegur hugvíkkandi skammtur af psilocybin, sem notaður er í lengri ferðalög, í kringum 4-8 gr. en smáskammtur væri þá 5-10% af því og dreifður yfir nokkurra daga eða vikna tímabil. Smáskammtarnir eru þannig teknir inn samfleytt í tvisvar til þrisvar í viku með hléum í tvo til þrjá mánuði. Einstaklingar sem neytt hafa psilocybin í smáskömmtun segjast finna fyrir léttleika og léttari lund, betri einbeitingu, bættri orku og ríkari sköpunargáfu. Í rannsóknum á smáskömmtun kemur fram að helsti ókosturinn telur fólk vera að efnin eru ólögleg, yfir þeim hvílir mikil bannhelgi og fordómar í heilbrigðiskerfinu, sem gerir það erfitt fyrir að leita læknisaðstoðar sé þess þörf.
Þó er vert að hafa í huga að öll erum við frábrugðin hvoru öðru og þegar hefja á smáskömmtun er gott að gefa sér tíma og rými til þess að prófa sig áfram, rétt eins og einstaklingur myndi gera á nýju geðlyfi eða sterku verkjalyfi. Gott er þannig að finna hver þröskuldurinn er, þ.a.e.s. hvenær einstaklingur fer að finna fyrir viðvarandi hugvíkkunar og/eða ofskynjunnaráhrifum og vinna sig niður frá því. Markmið smáskömmtunnar er einmitt ekki að finna fyrir slíkum áhrifum heldur nota hugvíkkandi eiginleikana til þess að létta lundina og auðvelda upplýsingaflæðið í gegnum taugakerfið.
Algengar aukaverkanir af smáskömmtun eru um margt þær sömu og finna má á lyfseðlum margra lyfseðilsskyldra geð- eða verkjalyfja. Einstaklingur getur fundið fyrir vægum sjóntruflunum, hita- eða kuldaköstum, doðatilfinningu eða seyðandi tilfinningu, svefnleysi, magaverkjum, minnkaðri eða meiri matarlyst og hausverkjum. Þegar ákvörðun er tekin um stórskömmtun, eða ferðalag, verður einstaklingur því að undirbúa sig fyrir það með góðum fyrirvara og fara inn í ferðalagið af heilum hug, tilbúið að takast á við það sem gæti komið upp á yfirborðið. Mikill munur er á því að neyta hugvíkkandi efna í stórum eða smáum skömmtum, bæði þegar kemur að virkni og eftirmálum. Við förum nánar yfir hugvíkkandi ferðalög í þessari færslu hér.
Einstaklingur getur ákveðið að hefja smáskömmtun og hætta henni hvenær sem er, vegna þess að flest hugvíkkandi efni kveikja ekki á fíknivökum heilans. Þannig eru hugvíkkandi efni frábrugðin alkahóli, nikótíni, ópíóðum og öðrum hefðbundnum geð- og verkjalyfjum, sem öll eru líklegri til þess að erta fíkniviðbragð heilans og mun einstaklingurinn líklega þróa með sér ákveðið þol fyrir efninu sem veldur því að sífellt þarf að neyta þess í meira magni. Fíkniáhrif eru því almennt ekki talin vera ein af aukaverkunum eða áhættum við að neyta hugvíkkandi efna í smáskömmtun.
Það að halda því fram að notkun hugvíkkandi efna sé besta leiðin fyrir öll að finna innri frið, er óábyrgt. Það verður að hafa það að leiðarljósi að ekki er til ein ákveðin lausn sem virkar fyrir öll, hvorki í náttúrunni né á tilraunastofum. Einstkalingur sem ákveður að hefja smáskömmtun á hugvíkkandi efnum verður ekki aðeins að finna köllun til þess heldur einnig kynna sér til hlítar eiginleika efnisins, ferli og tilgang smáskömmtunarinnar. Það verður seint ef aldrei fundin upp töfralausn sem læknar alla okkar kvilla og er það sjálfsvinnan sem unnin er í ferlinu í kringum hugvíkkandi efnin sem skiptir sköpum í að ná þeim árangri sem óskað er eftir í sambandi þínu við hugvíkkandi efni.