Hvernig virka hugvíkkandi sveppir?

Hugvíkkandi sveppir, stundum kallaðir „ofskynjunnarsveppir” á íslensku og „magic mushrooms” eða „shrooms” á ensku, eru ákveðin tegund sveppa af ættinni Psilocybe eða peðsveppum, sem eiga það allir sameiginlegt að innihalda efnið psilocybin. Þegar slíkra sveppa er neytt hafa þeir hugvíkkandi áhrif á einstaklinga með því að breyta efninu psilocybin í virka efnið psilocin. Efnin hafa svipaða efnauppbyggingu og taugaboðefnið serótónín en serótónín hefur virk áhrif á þau svæði heilans sem skynja og vinna með tilfinningar okkar. En hvers vegna étum við þessa sveppi?

Til eru rúmlega 180 tegundir peðsveppa, það er að segja sveppa sem innihalda hugvíkkandi efnið psilocybin, og þar á meðal er íslenska trjónupeðlan. Hugvíkkandi sveppir hafa verið og eru enn mikið notaðir af mörgum frumbyggjaættbálkum í Suður-og Mið-Ameríku og Afríku og eru notaðir í trúarlegum athöfnum eða sem andleg hjálpartæki. Áhugaverðar hellamyndir frá steinöld hafa fundist víða um Afríku og Evrópu sem sýna mögulega notkun frummanneskjunnar á peðsveppum og sjást slíkir sveppir í myndmáli, skúlptúrum og hellamyndum víða í Ameríkunum. Það er því ljóst að samband manneskjunnar og sveppana nær langt aftur í aldir og á sér langa og ríka sögu, sem aðeins hefur verið rétt klórað í á yfirborðinu. 

Þó svo hugvíkkandi eiginleikar margra peðsveppategunda hafi verið notaðir í meðferðar- og lækningarskyni af frumbyggjaþjóðum, var það ekki fyrr en árið 1958 sem svisslenska efnafræðingnum Albert Hoffman tókst að einangra og bera kennsl á virka efnið psilocybin í sveppunum. Fyrir einhverja ótrúleg tilviljun var það einnig dr. Hoffmann sem fann upp lýsergíðsýrutvíetýlamíð eða LSD á rannsóknarstofu sinni, sem var mikið rannsakað á öndverðum sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar en féll svo ónáð Bandaríkjastjórnar og var gert ólöglegt.

Hugvíkkandi sveppirnir hafa þó einnig verið notaðir og misnotaðir í gegnum tíðina sem skemmtana- og afþreyingarlyf, einkum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Sú misnotkun, skortur á vísindalegri þekkingu og vinsældir hugvíkkandi sveppa meðal andmenningarsamfélagsins, varð til þess að notkun, ræktun, dreifing og rannsóknir á hugvíkkandi efnum voru gerðar ólöglegar.

Bannið var mikið högg fyrir marga vísindamenn og ákafa rannsakendur sem mörg voru komin vel á veg með rannsóknir sínar á jákvæðum áhorfum hugvíkkandi efna á mannsheilann. En aldrei hurfu sveppirnir alveg, heldur færðist neysla þeirra aðeins út á jaðarinn og hefur lifað þar góðu lífi síðan. Það er ekki fyrr en í kringum aldamótin sem ákveðin sveppaendurreisn á sér stað og keppast nú vísindamenn um að rannsaka eiginleika psilocybin til áfallastreitumeðferðar, gegn þunglyndi og kvíða og sem hjálpartæki á líknardeildum. 

En hvernig er þá best að neyta þessara sveppa, skildi fólk óvart komast yfir slíka?

Hugvíkkandi sveppi má borða beint, þurrka og mylja niður í duft og blanda saman við vökva eins og te eða cacao. Einnig er vinsælt að setja hugvíkkandi sveppi út í súkkulaðiplötur, gjarnan með öðrum löglegum sveppategundum eins og reishi eða ljónsmakka. Hægt er að blanda sveppaduftinu við tóbak eða kannabis og reykja það en psilocybin er víða einnig fáanlegt sem glær-brúnn vökvi sem hægt er að drekka beint eða blanda út í mat og drykk. 

Psilocybin hermir eftir virkni taugaboðefnisins serótónín og virkjar viðtaka fyrir taugaboðefnið í heilanum. Þannig veldur psilocybin „ofvirkni” í ennisblaði og hnakkablaði heilans, í þeim skilningi að meiri virkni verður á þessum vígstöðvum heilans en hann er gjarnan vanur. Ennisblaðið tengist dómgreind okkar, hreyfingu og rökhugsun. Sú heilastöð er oft kölluð „default mode network” eða „sjálfvirka kerfið” og tengis sú heilastöð egóinu okkar. Þess vegna upplifa mörg sem neyta hugvíkkandi efna „ego death” eða „egó dauða” sem nánar er farið í þessari færslu hér. Í hnakkablaðinu er aftur á móti sjónbörkurinn okkar og er það þess vegna sem ofskynjanir eða ofsjónir eru algengar þegar teknir eru inn stórir skammtar af hugvíkkandi efnum.

Þess vegna er mjög mikilvægt að einstaklingur sem tekur inn stóran skammt af psilocybin sé í vernduðu umhverfi og viðstödd sé manneskja sem viðkomandi treystir og er allsgáð á meðan ferðalaginu stendur. 

En hvers vegna er mikilvægt að tala um skyldleika psilocybins og taugaboðefnisins serótóníns? Væri ekki nær lagi að innbyrða mikið magn af SSRI-lyfjum í staðinn og auðga þannig serótónín upptöku heilans?

Því miður er svarið ekki svo einfalt. Í mannslíkamanum finnast fjögur taugaboðefni sem veita okkur hamingju: serótónín, dópamín, oxytósín og endorfín og gegna þau öll lykilhlutverkum í nauðsynlegum hormónabúskap manneskjunnar.

Í stuttu máli er dópamín „verðlaunahormónið”, þessi skammgóði vermir sem spýtist af stað í heilanum þegar við náum markmiðum, gerum vel við okkur eða verðlaunum sjálf okkur á einn eða annan hátt. Endorfín er náttúrulegur verkjastillir og mikil gleðigjafi í heilanum sem brýst fram þegar við hlæjum, skemmtum okkur eða eftir góða hreyfingu og útivist. Oxytósín, sem ekki má rugla saman við ópíóðalyfið OxyContin, er ástarhormónið. Oxytósín nær tökum á heilanum þegar við elskumst, knúsumst eða hrósum hvoru öðru - nánast í hvert einasta skipti sem við finnum fyrir eða gefum ást, erum við að finna fyrir áhrifum oxytósíns á heilann.

Serótónín er örlítið frábrugðið þessum þremur hormónum, sem smyrja heilann við ákveðnar ýktar aðstæður, en serótónín er nokkurskonar jafnvægisbúnaður hormónabúskaparins. Öll þessi hormón eru okkur lífsnauðsynleg, en serótónín er það taugaboðefni sem hefur hvað mest áhrif á okkar daglega líf og líðan og heldur okkur í andlegu jafnvægi. Ýmsar rannsóknir benda til þess að serótónín gegni einnig mikilvægu hlutverki í geðrænum veikindum eins og þunglyndi, kvíða og áráttu- og þráhyggjuröskun.

Það er í rauninni skortur á serótóníni sem hefur þessi áhrif, segja margir læknar og vísindamenn, og er talið að fólk sem lifir með slíkum geðgreiningum hafi færri eða ónæmari serótónínviðtaka í heilanum, sem aftur veldur minni virkni og framleiðslu á serótóníni. Þess vegna eru gjarnan uppáskrifuð svokölluð SSRI og SNRI lyf til slíkra sjúklinga, en lyfin eiga að auka áhrif serótóníns á heilann. Þar sem psilocybin hefur áþekka uppbyggingu og serótónín, hefur verið sýnt fram á svipaða virkni þess í heilanum.

En við hverju mátt ég búast þegar ég innbyrði hugvíkkandi sveppi?

Þegar þú innbyrðir hráa hugvíkkandi sveppi koma áhrifin líklegast fram hálftíma eftir inntöku. Hægt er að hraða þessum áhrifum með því að blanda sveppunum út í te eða bleyta þá upp með sítrónu. Þá er öllu líklegra að áhrifin komi fram í kringum 10-15 mínútur eftir inntöku. Hversu lengi áhrifin vara er hinsvegar ekki svo einfalt að svara og eru þar margar breytur sem hafa áhrif.

Áhrifin fara allt eftir tegund og magni sveppa, styrkleika þeirra og eftir því hvenær þú borðaðir síðast. Líklegast er að þú finnir fyrir mestum áhrifum sveppana klukkutíma, einn og hálfan eftir inntöku þeirra og munu áhrifin óneitanlega fjara út eftir fjórar til sex klukkustundir. Hinsvegar er mjög líklegt að þú missir allt tímaskyn þegar hugvíkkandi áhrifin koma fram og því er mikilvægt að vera í öruggu umhverfi með allsgáðri manneskju sem getur aðstoðað þig og sagt þér hvernig tímanum líður. 

En hvernig veistu hvort sveppirnir séu að virka? Hvernig eru eiginlega áhrifin?

Líklega muntu fyrst finna fyrir „opnun” og ákveðinni alsælutilfinningu, eins og litirnir verði bjartari, mynstrin skemmtilegri og eins að dauðir hlutir í kringum þig taki að „anda”. Hugvíkkandi áhrifin geta einnig valdið ofsjónum og ofskynjunum, sem ekki endilega þurfa að vera af neikvæðum toga. Þú gætir fundið fyrir gömlum sársauka og áföllum læðast upp á yfirborðið, sem vert væri að skoða nánar í meðferðarsamhengi eftir að ferðalaginu lýkur. Þó ekki sé hægt að stöðva áhrifin skyndilega, er hægt að halda slæmum skynjunum í skefjum með því að hlusta á rólega tónlist, loka augunum og vera í nágvígi við manneskju sem þú treystir. Þá gæti verið gott að endurataka upphátt að þessu muni senn yfir ljúka og sé ekki varanlegt ástand.

Sveppirnir eru vanalega farnir úr kerfinu eftir 24 til 48 klukkustundir en ákveðin umbrotsefni verða eftir í líkamanum í nokkra mánuði. Engar áhyggjur þó, venjulegt fíkniefnapróf prófar ekki psilocybin eða umbrotsefni þess þó sérstök eiturefnapróf geti gert það. Ákveðnar tegundir þvagprófanna geta mælt umbrotsefni sveppanna í allt að viku eftir inntöku þeirra og sum hársýni nema efnin í allt að 90 daga eftir inntöku. Slík próf eru þó ekki auðfáanleg og eru kostnaðarsöm, svo ólíklegt er að þau verði notuð á einstaklinga nema sterkur grunur leiki á inntöku hugvíkkandi sveppa. 

Nánast ómögulegt er að ánetjast sveppum einum og sér og ekki er talið að hægt sé að taka banvænan skammt af psilocybin en hafa ber í huga að sé einstakingurinn ekki í vernduðu, öruggu umhverfi geta ofsjónir og ofskynjanir leitt til áhættuhegðunnar sem í einhverjum tilfellum hafa valdið dauða. Því er mikilvægt að nálgast hugvíkkandi sveppi af mikilli varkárni og virðingu og hafa skýrt mótaðan ásetning eða jákvæðan tilgang að leiðarljósi þegar þeirra er neytt. 

Peðsveppir eru einstakir þegar kemur að hugvíkkandi efnum eða „psychedelics” yfir höfuð. Þeir finnast í náttúrunni og koma ekki úr höndum manna á rannsóknarstofum eins og ketamín, MDMA og LSD. Þó eru til lyfjafyrirtæki eins og Compass Pathways og fleiri, sem þróað hafa tilbúið psilocybin sem notað er í lyfjarannsóknum í dag og kemur í töfluformi. Psilocybin eykur á tengslamyndun og samvirkni mismunandi stöðva í heilanum, á hátt sem ekkert annað lyf sem við þekkjum gerir. Það veldur því að ákveðin svæði heilans fara að tengjast öðrum svæðum, sem vanalega gera og geta það ekki. Þannig ef heilinn er eins og sinfónía, þar sem sextettinn leikur sitt lag í einu horni og kvartettinn í öðru, má segja að psilocybin sé eins og hljósmveitarstjórinn. Þannig verður úr stórkostleg lagasmíði þegar hljómsveitarstjórinn mundar prikið á þann hátt sem enginn annar getur gert.

Það sem meira er, er að rannsóknir sem gerðar hafa verið á krabbameinssjúklingum sem innbyrtu psilocybin á líknardeildum, sýna áhrif efnisins geta varað í allt að 4-6 mánuði eftir inntöku. Þetta er alveg óþekkt í heimi læknavísindanna, að einstaklingur geti innbyrt efni aðeins einu sinni en enn notið jákvæðra áhrifa þess svo löngu síðar. 

Rannsóknir benda einnig til þess að langtímanotkun psilocybins sé ekki skaðleg eðlilegri heilastarfsemi eins og önnur fíkni- eða læknalyf geta verið. Ein rannsókn hefur m.a.s sýnt fram á það að psilocybin sé eitt öruggasta lyf sinnar tegundar sem til er. Því er ljóst að manneskjan hefur hér í höndunum eitthvað stórkostlegt efni sem þó verður að fara varlega með og er því gríðarlega mikilvægt að lögleiða slík efni í rannsóknarskyni, svo mannkynið geti stigið næsta skrefið í læknavísindunum frá meðferðum sem halda einkennum í skefjum í átt að meðferðum sem veita fólki varanlegan bata.

Previous
Previous

Hvað er smáskömmtun?

Next
Next

Hvernig nýtist MDMA í meðferðarskyni?